Afhending undirskrifta við Alþingi
Afhending undirskriftalista um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Öryrkjabandalag Íslands hefur undanfarna mánuði staðið fyrir undirskriftasöfnun á vefsíðunni www.obi.is þar sem skorað er á stjórnvöld að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Undirskriftarsöfnunni lýkur á miðnætti þriðjudaginn 10. nóvember. Formaður ÖBÍ mun afhenda innanríkisráðherra undirskriftirnar við Alþingishúsið nk. miðvikudag 11. nóvember kl. 12.30. Þá stendur einnig til að afhenda öllum þingmönnum fugl sem unninn er af Nilsínu Larsen Einarsdóttur sem er varamaður í stjórn ÖBÍ. Fuglinn táknar ósk fatlaðs fólks sem felst meðal annars í fullgildingu samningsins. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarvísir að því hvernig tryggja skal fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra í lífinu og gera því þannig kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.151 land hefur fullgilt samninginn og aðeins örfá Evrópulönd eiga eftir að fullgilda hann. Ísland er annað tveggja Norðurlanda sem ekki hafa fullgilt hann, hitt er Finnland sem er að ljúka við vinnu við fullgildingu um þessar mundir.
The post Afhending undirskrifta við Alþingi appeared first on diabetes.