Briskirtillinn framleiðir insúlín en virkni þess er verulega skert. Líkaminn leitast í byrjun við að leiðrétta þennan galla með því að auka insúlínframleiðslu umfram það sem eðlilegt er, til þess að viðhalda jafnvægi. Eftir nokkur ár gefur briskirtillinn sig, insúlínframleiðslan minnkar og blóðsykurinn hækkar í framhaldi af því. Þess vegna hefur þessi hæggengi sjúkdómur oftast verið til staðar í mörg ár áður en hann greinist.
Hjá langflestum er helstu orsaka að leita í erfðum. Lífsstíll, ofþyngd, mataræði og hreyfingarleysi getur flýtt fyrir því að kveikja á erfðaþáttunum.
Helstu áhættuþættir varðandi diabetes af tegund 2
- Að eiga ættingja með diabetes
- Að hafa fengið diabetes á meðgöngu
- Að vera of þung/ur
- Að hafa of háan blóðþrýsting
- Að þjást af æðakölkun (t.d. kransæðastíflu)
- Að hafa of háa blóðfitu (kólesteról og þríglýseríða)